Bálför eða jarðarför
Í samráði við óskir hins látna ákveða aðstandendur hvort fram fari bálför eða jarðarför. Útfararþjónustan sér um að afla tilskilinna leyfa fyrir bálför sem aðstandendur þurfa að undirrita. Bálför er að öllu leyti eins nema að ekki er farið með kistu í kirkjugarð. Í lok athafnar er viðstöddum stundum boðið að kveðja kistuna við altarið eða kistan borin út í opin líkbíl þar sem gestir geta kvatt kistuna á leið sinni frá athöfn.
Útfararþjónustan sér svo um að flytja kistuna í Bálstofuna við Fossvogskirkjugarð eftir athöfn. Brennslan sjálf fer svo fram nokkrum dögum seinna. Eftir bálför er askan varðveitt í duftkeri hjá Bálstofunni þar til duftkerið verður jarðsett.
Aðstandendur ákveða hvenær duftkerið skuli jarðsett í samráði við útfararþjónustuna. Hafa þarf samband við útfararþjónustuna með að minnsta kosti tveggja daga fyrirvara vegna greftrunar duftkers til að hægt sé að bóka grafartöku hjá kirkjugörðum. Stundum er prestur eða athafnastjóri kvaddur til þegar duftker er jarðsett eftir óskum aðstandenda.
Aðstandendur taka svo ákvörðum um hvort þeir vilji að Útfararþjónustan útvegi leiðismerkingu fyrir duftker til að merkja leiðið strax við jarðsetningu.
Sérstakir grafreitir fyrir duftker eru til að mynda í Sóllandi í Fossvogi, í Gufuneskirkjugarði og í Kópavogskirkjugarði. Einnig eru duftreitir í Garðakirkjugarði, Hafnarfjarðarkirkjugarði, Lágafellskirkjugarði og Mosfellskirkjugarði. Einnig er hægt að jarðsetja duftker ofan í kistugröf hjá ættingjum eða vinum með samþykki skráðs aðstandanda leiðis.
Einnig má sækja um leyfi til dreifingar á ösku látinna einstaklinga til sýslumanns. Upplýsingar og umsókn um leyfi til dreifingar á ösku látinna https://www.syslumenn.is/thjonusta/leyfi-og-loggildingar/leyfi-til-dreifingar-a-osku-latins-manns/
Nánari upplýsingar um Bálfarir á heimasíðu kirkjugarða http://www.kirkjugardar.is/sida.php?id=263&width=1536&height=864