Undirbúningur og skipulag útfarar

Kistulagning

Kistulagning er stutt kveðjuathöfn nánustu fjölskyldu. Í lokin er venja að ganga að kistu og kveðja ásjónu hins látna. Stundum er tónlist við athöfnina eftir óskum aðstandenda í samráði við prest, athafnastjóra og útfararþjónustu. Yfirleitt er kistan opin og blæja yfir ásjónu hins látna. Aðstandendur ráða því hvort blæjan sé fjarlægð í lok athafnar og ræða það fyrirkomulag við prest eða athafnastjóra. Að lokinni athöfn er kistunni lokað. Stundum vilja aðstandendur vera viðstaddir þegar kistu er lokað og taka þátt í því. Algengt er að kistulagningar fari fram á sama stað og sama dag og útför og þá gjarnan um einni til tveimur klukkustundum fyrir útförina. Einnig er hægt að hafa kistulagningu nokkrum dögum fyrir útför sé þess óskað.

Útför

Kirkjuvörður og útfarstjóri taka á móti aðstandendum þegar þau mæta til útfarar. Í hefðbundnum athöfnum er venjan að nánasta fjölskylda sitji á fremstu bekkjum vinstra megin í kirkjunni en kistuberar fremst hægra megin. Stundum vilja kistuberar frekar sitja hver hjá sínu fólki. Útfararstjóri ræðir við burðamenn fyrir athöfn og fer með þeim yfir hvernig best sé að bera sig að. Venja er að annaðhvort sex eða átta beri kistuna. Kistan er borin út undir eftirspilinu eftir að útfararstjóri hefur komið inn og kallað burðamenn að kistu. Þegar blóm og kransar eru við kistu er algengt að þeir séu bornir út af ættingjum og ræða aðstandendur það fyrirkomulag við útfararstjóra.

Veraldlegum útförum hefur fjölgað mikið á undanförnum árum og höfum við orðið talverða reynslu af því að annast slíkar athafnir. Veraldleg útför fer fram til að minnast á formlegan og virðulegan máta látins ættingja eða vinar. Veraldlegar útfarir eru miðaðar að þörfum fólks með veraldlegar/húmanískar lífsskoðanir, en eru opnar öllum óháð lífsskoðun. Nánar um veraldlegar athafnir má fræðast hér.

Sálmaskrá

Sálmaskrá er prentuð dagskrá útfarar. Útfararþjónustan sér um uppsetningu og prentun á sálmaskrá sé þess óskað. Þegar dagskrá liggur fyrir er hægt að hefja uppsetningu og algengt er að aðstandendur komi myndum til útfararþjónustunnar til að prenta í sálmaskrá. Aðstandendur fá svo próförk til að lesa yfir áður en prentað er. Þegar skráin er tilbúin til prentunar tilkynna aðstandendur útfararþjónustunni hversu mörg eintök skuli prenta. Oft getur það vafist fyrir aðstandendum að spá fyrir um hversu margir muni mæta til útfarar en jafnan er betra að taka fleiri eintök en færri. Útfararþjónustan prentar sálmaskrá í samstarfi við prentstofuna Hvíta örkin og sjá má dæmi um mögulegar uppsetningar hér.

Tónlist fyrir athöfn

Stundum óska aðstandendur eftir því að tónlistarfólk leiki tónlist meðan gestir ganga til sætis. Jafnan er þá um að ræða létta tónlist um 20-30 mínútur fyrir athöfn. Athuga þarf þó að jafnan þarf að greiða tónlistarfólki aukalega fyrir það. Útfararþjónustan getur haft milligöngu um slíkan tónlistarflutning sé þess óskað.

Útfarir geta vissulega verið með ýmsu sniði. Hér að neðan má sjá dæmi um uppsetningu á hefðbundinni útför.

Dæmi um uppsetningu á útför:

 • Forspil
 • Bæn
 • Ritningarlestur
 • Sálmur eða tónlist
 • Guðspjall
 • Sálmur eða tónlist (einsöngur eða einleikur)
 • Minningarorð
 • Sálmur eða tónlist (einsöngur eða einleikur)
 • Bænir
 • Faðir vor
 • Sálmur eða tónlist
 • Moldun
 • Sálmur eða tónlist
 • Blessun
 • Eftirspil

Við lok útfarar

Kistan er borin út í bíl undir eftirspilinu eftir að útfararstjóri hefur komið inn og kallað burðamenn að kistu. Þegar blóm og kransar eru við kistu er algengt að þeir séu bornir út af ættingjum og ræða aðstandendur það fyrirkomulag við útfararstjóra

Nánustu ættingjar og vinir taka þátt í líkfylgdinni í kirkjugarðinn.

Í kirkjugarðinum

 • Kistan borin úr bíl og látin síga í gröf ef aðstæður í kirkjugarði leyfa
 • Prestur eða athafnastjóri segir nokkur orð
 • viðstaddir ganga að gröf og kveðja hinn látna

Útfararstjóri leggur blómakransa til hliðar við leiðið. Eftir að aðstandendur yfirgefa kirkjugarð ganga garðyrkjumenn og starfsfólk kirkjugarða frá gröfinni og að lokum eru kransar settir ofan á leiðið. Sé þess óskað getur útfararþjónustan útvegað leiðismerkingu með nafni hins látna.

Bálför er að öllu leyti eins og jarðarför nema að ekki er farið með kistu í kirkjugarð. Sjá nánar um bálför hér.