Við andlát: Hverju þarf að huga að?

Við andlát ættingja verða þáttaskil sem marka spor í líf fólks. Eðlilega vakna margar spurningar um hvaða ferli taki nú við. Best er að hafa sem fyrst beint samband við útfararþjónustuna og fá ráðleggingar um næstu skref. Við höfum áratuga reynslu af að annast alla þætti útfararþjónustu.

Sími: 567-9110
Netfang: utfarir@utfarir.is

Í samráði við aðstandendur og starfsfólk á viðkomandi heilbrigðisstofnun sér útfaraþjónustan um að flytja þann þann látna í líkhús. Hægt er að hafa samband allan sólarhringinn alla daga ársins. Fljótlega eftir andlát er gott að aðstandendur og útfararstjóri mæli sér mót og ræði næstu skref. Hægt er að hafa slíkan fund hvar sem aðstandendum hentar best og er algengast er að útfararstjóri komi heim til aðstandenda og fari yfir undirbúning og skipulag útfarar.

Prestur, athafnastjóri eða forstöðumaður trúfélags

Aðstandendur velja þann sem þau óska að taki að sér útförina. Gott er að heyra beint í viðkomandi og eru flestallir prestar skráðir í símaskrá og/eða í viðkomandi kirkju. Útfararþjónustan aðstoðar aðstandendur við að komast í samband við prest, athafnastjóra eða forstöðumann trúfélags sé þess óskað.

Kistulagning og útför

Ákveða þarf hvar og hvenær athöfnin skuli fara fram. Algengt er að kistulagningar fari fram á sama stað og sama dag og útför og þá gjarnan um einni til tveimur klukkustundum fyrir útförina. Einnig er hægt að hafa kistulagningu nokkrum dögum fyrir útför sé þess óskað. Algengast er þá að kistulagning fari fram í Fossvogskappellu. Útfararþjónustan sér um að bóka kirkju fyrir kistulagningu og útför í samráði við aðstandendur. Sjá nánar um skipulag útfarar.

Bálför eða jarðarför

Í samráði við óskir hins látna ákveða aðstandendur hvort fram fari bálför eða jarðarför. Útfaraþjónustan aðstoðar við að afla tilskilinna leyfa og fá legstæði í kirkjugarði. Hér má sjá nánari upplýsingar um bálfarir.

Legstæði í kirkjugarði

Útfararþjónustan sér um öll samskipti við kirkjugarða fyrir aðstandendur. Við aðstoðum við að fá úthlutað legstæði hvort sem er fyrir kistur eða duftker og öflum tilskilinna leyfa. Í samráði við aðstandendur tökum við frá grafarstæði við hlið hins látna sé þess óskað.

Dánarvottorð

Læknir á viðkomandi heilbrigðisstofnun ritar dánarvottorð. Aðstandandi hins látna fær afhent dánarvottorð á heilbrigðisstofnun eða hjá lækni sem skoðaði hinn látna. Aðstandandi afhendir dánarvottorðið sýslumanni Hlíðarsmára 1, Kópavogi. Sýslumaður afhendir þá aðstandanda staðfestingu á móttöku dánarvottorðs sem aðstandandi afhendir presti eða forstöðumanni lífsskoðunarfélags fyrir útför.

Sjá nánar um undirbúning útfarar og skipulag hér